Lög Vistfræðifélags Íslands

Samþykkt á aðalfundi 2010 með breytingum á aðalfundi 2011 og 2017.
 
I. kafli
Heiti félags, heimili og hlutverk

1. gr.
Félagið heitir Vistfræðifélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Hlutverk félagsins er að efla íslenskar vistfræðirannsóknir og vistfræðiþekkingu. Þessu hlutverki hyggst félagið sinna með því að:
a) Stuðla að kynningum á rannsóknum íslenskra vistfræðinga og vistfræðinema.
b) Efla tengsl milli þeirra sem sinna vistfræðirannsóknum.
c) Stuðla að samþættingu vistfræðirannsókna á Íslandi.
d) Stuðla að faglegri þjóðfélagsumræðu og fræðslu um vistfræðileg málefni.

3.gr.
Heimilt er að félagið gerist aðili að félagasamtökum og að hluti af árgjaldi renni til slíkra samtaka.

II. kafli
Félagsmenn
 
4.gr.
Stofnfélagar eru þeir sem skráðir eru í sérstaka stofnfélagaskrá við stofnun félagsins 6. nóvember 2009 og fram að fyrsta aðalfundi. Félagsmenn geta orðið allir þeir sem hafa lokið háskólaprófi í líffræði eða skyldum greinum og styðja tilgang félagsins. Sá sem óskar að gerast félagi skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn um inngöngu. Allir félagsmenn hafa sömu réttindi og bera sömu skyldur.

III. kafli
Félagsfundir
 
5. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í apríl ár hvert. Til hans skal boðað með tryggilegum hætti, með viku fyrirvara hið skemmsta, og er hann þá lögmætur. Meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum þessum. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir félagsmenn sem skuldlausir eru við félagið á aðalfundinum. Aðalfundur ákveður árgjald félagsmanna.

6. gr.
Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:
1. Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.
2. Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.
3. Lagabreytingar, ef einhverjar eru.
4. Kosning stjórnar og varastjórnar.
5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og einn til vara.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Önnur mál.

IV.kafli
Stjórn félagsins
 
7. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Kjörtímabil er tvö ár í senn. Annað árið skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varamann. Hitt árið skal kjósa tvo stjórnarmenn og einn varamann. Formann skal alltaf kjósa sérstaklega. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum. Við það skal miðað að enginn stjórnarmaður sitji lengur en þrjú kjörtímabil í sama embætti í stjórn. Enginn fastlaunaður starfsmaður félagsins getur jafnframt verið í stjórn þess.

8. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins og tekur ákvarðanir um starfsemi þess í samræmi við ákvarðanir aðalfundar og lögmæltan tilgang félagsins. Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum þess og skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum. Er undirskrift formanns og annars stjórnarmanns nægileg til þess.

9. gr.
Stjórnarfundi skal halda reglulega og eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Stjórnarfundi boðar formaður með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

 V. kafli
Ýmis ákvæði

10. gr.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

11. gr.
Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða. Í aðalfundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar a.m.k. lýst. Tillögur um breytingar á lögum verða að berast stjórn tveimur vikum fyrir aðalfund hið minnsta.

12. gr.
Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytingar, sbr. 13. gr. Verði slík tillaga samþykkt skulu eignir félagsins renna til Hins Íslenska Náttúrufræðifélags.
 
Ákvæði til bráðabirgða
Vegna stjórnarkjörs á fyrsta aðalfundi í mars 2010
Á aðalfundi í mars 2010 skal kjósa tvo stjórnarmenn og einn varamann í stjórn sem sitja í tvö ár og tvo stjórnarmenn og einn varamann sem sitja í eitt ár. Formaður er kosinn sérstaklega (sbr. 7. gr.) og er hann kosinn til tveggja ára.